7 Apríl 2004 12:00
Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er haldinn 7. apríl ár hvert af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Dagurinn er ætlaður til þess að hvetja til umræðu og fanga athygli almennings á mikilvægum heilbrigðismálum. Kjörorð dagsins í ár er umferðaröryggi, eins og segir í fyrirmælum ríkislögreglustjóraembættisins til allra lögreglustjóra á landinu. Í þessu sambandi mun lögreglan á Ísafirði beina athyglinni sérstaklega að ýmsum mikilvægum þáttum í umferðinni og má þar nefna m.a. hraðakstur, öryggisbeltanotkun og ölvunarakstur. Lögreglan hefur undanfarna daga, og mun halda áfram, að fylgjast sérstaklega með umferð í Ísafjarðardjúpi og í vestanverðri sýslunni. Straumur fólks til Ísafjarðar er nokkuð farinn að aukast í tengslum við páskahátíðina, fermingar og eins vegna „skíðavikunnar“. Lögreglan vill hvetja ökumenn til að haga akstri eftir aðstæðum.