29 Júní 2005 12:00
Í fréttatilkynningu frá Europol kemur fram að yfirvöld í Tékklandi beindu sjónum sínum að árlegum fundi Vítisengla (Hells Angels) sem haldinn var í Prag 24 til 26 júní. Löggæslustofnanir frá nokkrum löndum ásamt Europol tóku þátt í aðgerðum yfirvalda. Tékknesk yfirvöld neituðu 101 meðlimi Vítisengla aðgangi að landinu en áætla að um 1500 vítisenglar hafi verið saman komnir á fundarstað samtakanna. Komið var upp aðgerðastöð í Prag þar sem svæðisstöð Europol og sérstök deild sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi fóru með stjórn aðgerða. Öflugt eftirlit var með fundinum og telja starfsmenn Europol að þær upplýsingar sem safnað var muni bæta þá vitneskju sem fyrir liggur hjá löggæslustofnunum um starfssemi Vítisengla.
Embætti ríkislögreglustjóra er í nánu samstarfi við Europol, en einnig við lögregluyfirvöld á Norðurlöndum og víðar, til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi. Þannig hefur embættið á grundvelli slíks samstarfs beitt sér fyrir því að meina afbrotamönnum aðgang að landinu.
Sjá nánar fréttatilkynningu Europol.