28 Nóvember 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið aðgang að svokölluðum ICSE-gagnagrunni Interpol en í honum eru vistaðar barnaníðingsmyndir, sem lögreglulið víða um heim hafa lagt hald á við rannsóknir mála. Uri Sadeh, sérfræðingur frá Interpol, kom til Íslands í síðustu viku og kynnti þennan gagnagrunn fyrir nokkrum starfsmönnum embættisins. Í framhaldinu sátu þrír lögreglumenn úr kynferðisbrotadeild LRH sérstakt námskeið um notkun gagnagrunnsins og greiningu mynda. Megintilgangurinn er að reyna að bera kennsl á fórnarlömbin og bjarga þeim úr klóm gerenda. LRH hefur þegar sett barnaníðingsmyndur úr tveimur málum hérlendis í fyrrnefndan gagnagrunn en tilgangurinn var að kanna hvort þeim hefði verið dreift erlendis. Svo reyndist ekki vera en þess ber þó að geta að ekki eiga öll lögreglulið aðgang að gagnagrunninum. Sem stendur eru lögreglulið í þrjátíu og þremur löndum þátttakendur í samstarfinu en búast má við að fleiri þjóðir bætist í hópinn fljótlega. Þess skal getið að ICSE er skammstöfun fyrir International Child Sexual Exploitation database.
Uri Sadeh frá Interpol og Björgvin Björgvinsson frá kynferðisbrotadeild LRH.