6 September 2022 14:21
Laust fyrir kl. 10:30 í morgun voru lögregla og sjúkraflutningar kölluð til á heilsugæslu HSU á Hvolsvelli vegna veiðimanns sem hafði orðið fyrir miklum bruna á fótum og kvið eftir að hafa fengið í gegnum sig háspennu. Mjög löng veiðistöng mannsins mun hafa rekist upp í háspennulínu sem liggur yfir Eystri Rangá móts við bæinn Minna-Hof og þannig leitt spennu niður stöngina og í gegnum manninn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Frekari upplýsingar um líðan mannsins liggja ekki fyrir.
Maðurinn sem um ræðir er á sextugsaldri, erlendur ríkisborgari í veiðiferð hér á landi.
Vettvangsvinnu er enn ólokið en rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurlandi vinnur að rannsókn málsins.