23 September 2005 12:00

Í dag ályktaði formannsfundur Landssambands lögreglumanna um ásakanir ýmissa aðila í samfélaginu gagnvart starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Þar var tekið undir yfirlýsingu efnahagsbrotadeildar sem birt var í gær. Ályktunin er svohljóðandi:

Ályktun formannafundar Landssambands lögreglumanna

Formannafundur Landssambands lögreglumanna tekur heilshugar undir yfirlýsingu starfsmanna efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóraembættisins í tilefni alvarlegra ásakana ýmissa aðila í samfélaginu um misbeitingu valds innan lögreglukerfisins.

Telur fundurinn hreint með ólíkindum hvernig ákveðnir einstaklingar hafa tjáð sig með órökstuddum hætti og látið liggja að undirlægjuhætti og misbeitingu valds innan lögreglunnar og í raun í réttarkerfinu öllu.

Að mati fundarins er það með öllu óþolandi að lögreglumenn þurfi ítrekað að þola staðhæfingar sem algerlega eru úr lausu lofti gripnar um ómálefnaleg og ólögleg vinnubrögð sín.

Bent er á að lögreglumönnum er skylt að vinna í samræmi við lög og reglur og hafa hlotið víðtæka og viðamikla menntun þannig að tryggt sé með einu og öllu að störf lögreglu séu unnin á faglegan og málefnalegan hátt.

Ekkert er hæft í því að lögreglumenn séu viljalaus verkfæri í höndum utanaðkomandi aðila og ásakanir þess efnis eru í raun ásakanir um alvarleg hegningarlagabrot fjölda lögreglumanna.  Slíkur málflutningur er rakalaus og ekki samboðinn einstaklingum sem ætlast til að orð þeirra séu tekin trúanlega.

Landssamband lögreglumanna hvetur til þess að þeir aðilar sem fjalla vilja um lögreglumálefni geri það með málefnalegum hætti.

Samþykkt á formannafundi Landssambands lögreglumanna 23. september 2005 kl. 15:00