14 September 2009 12:00

Fundur Umferðarráðs 10. september 2009 ályktar:

Starfsemi grunnskóla er nú komin í fullan gang með tilheyrandi umferð. Sjaldan hafa fleiri börn hafið grunnskólanám hér á landi og því er mikil ástæða til að beina athygli að öryggi þeirra og umhverfi.

Foreldrar og forráðamenn þurfa að undirbúa börnin, leiðbeina þeim og velja öruggustu leiðina í skólann. Ökumenn þurfa að vera sérlega vel á verði og minnt er á að víðast hvar er hámarkshraði við grunnskóla 30 km/klst.

Á undanförnum árum hafa foreldrar verið hvattir til að láta börn sín fara gangandi í skólann, þar sem víða eru aðstæður til að hleypa börnum út úr bíl takmarkaðar og geta hugsanlega skapað hættu. Umferð bíla foreldra skapar oft á tíðum mestu hættuna við skólana.

Senn líður að því að skyggja taki og þess vega er eðlilegt að minna enn og aftur á mikilvægi endurskinsmerkja til öryggis fyrir gangandi fólk, jafnt börn sem fullorðna.