3 September 2012 12:00

Nýafstaðin Ljósanótt í Reykjanesbæ fór vel fram og gekk þáttur löggæslu í bænum vel.  Hátíðin hófst á fimmtudagsmorgun og náði hámarki á laugardagskvöld þegar um tuttugu þúsund gestir voru saman komnir, meðal annars til að fylgjast með voldugri flugeldasýningu. Fólk skemmti sér vel og ánægja skein úr hverju andliti.

Busaball var á fimmtudagskvöldið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og þar voru ungmennin til fyrirmyndar.

Talsverðar annir voru hjá lögreglu á Ljósanótt,  enda í  ýmsu að snúast við stjórnun, auk þess sem gönguhópar lögreglumanna voru á svæðinu og fylgdust gjörla með því að fólk færi að settum reglum. Hátíðin var stórslysalaus og engin alvarleg mál komu upp. Lögregla hafði afskipti af nokkrum unglingum sem ýmist voru einir á ferð og brutu þar með útivistarreglur, eða ölvaðir og með áfengi,  sem tekið var af þeim og hellt niður.

Sem fyrr naut lögregla aðstoðar ýmissa aðila á Ljósanótt, svo sem björgunarsveita, Landhelgisgæslu og fleiri. Þeim, sem lögðu hönd á plóg, eru færðar kærar þakkir fyrir aðstoðina.