28 September 2014 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar andlát 26 ára gamallar konu. Eiginmaður konunnar, sem er 28 ára að aldri, er í haldi lögreglu grunaður um að hafa orðið henni að bana.

Lögreglu barst tilkynning um kona væri látin á heimili sínu í Breiðholti skömmu eftir miðnætti. Tilkynningin barst frá aðila sem hinn handtekni hafði látið vita af andlátinu. Við komu á vettvang vaknaði grunur um að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti. Eiginmaður konunnar, sem ekki hefur komið við sögu lögreglu áður vegna sakamála, var handtekinn í íbúðinni og færður í fangageymslu lögreglu. Hann er grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konunnar þannig að hún hlaut bana af.

Yfirheyrslur yfir hinum grunaða standa nú yfir og lögð verður fram krafa um gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna síðar í dag. Börn hjónanna, tveggja og fimm ára voru á heimilinu, en þeim hefur verið komið í viðeigandi umönnun hjá barnaverndaryfirvöldum.