2 Ágúst 2009 12:00

Rólegra var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt en nóttina þar á undan. Engin stærri mál komu upp. Tveir menn voru handteknir fyrir að veitast að lögreglumönnum og fengu að gista fangageymslu ásamt 4 öðrum sem voru með óspektir.  Í öðru tilvikinu var lögreglumaður sleginn í andlit.

Sex ný fíkniefnamál komu upp í gærkveldi og nótt, en fíkniefnalöggæsla var efld í gærdag.  Í einu tilviki er grunur um sölu fíkniefna.

Um kl. 04:00 í nótt fór að rigna og virtist þá sem ró færðist yfir hátíðargesti og margir fóru til síns heima. Fljótlega stytti þó upp og nú er sól og blíða í Herjólfsdal.

Lögregla áætlar að fjöldi gesta sé nú á þrettánda þúsund.  Enn streyma að þjóðhátíðargestir og eiga nokkur hundruð manns bókað með Herjólfi og flugi í dag. Því má búast við miklu fjölmenni á brekkusöngnum í kvöld.