5 Ágúst 2012 12:00

Skemmtanahald í Herjólfsdal fór að mestu vel fram síðastliðna nótt og var rólegra hjá lögreglunni en nóttina á undan. Þrír gistu fangageymslu í nótt, einn vegna skemmdaverka en hann braut rúðu í Versluninni Kjarval, annar vegna fíkniefnamáls þar sem ekki lá fyrir játning hjá honum fyrir að eiga efni sem fannst á honum.

Sá þriðji sem gisti fangageymslu var aðili sem var handtekinn í Herjólfsdal í gærkveldi grunaður um nauðgun nóttina áður. Hann var færður í fangageymslu og verða teknar af honum skýrslur í dag. Lögreglan var með upplýsingar um þennan aðila og leitaði hans í gær sem síðan leiddi til þess að gæslufólk á hátíðasvæðinu kom auga á hann og var hinn grunaði handtekinn í kjölfarið. Málið er á forræði lögreglunnar á Selfossi og mun lögreglumaður koma til Eyja í dag til frekari rannsókna á málinu.

Fíkniefnamálunum fjölgaði um 17 frá því um miðjan dag í gær og eru þau orðin 40 talsins á hátíðinni. Öll málin varða svokallaða neysluskammta. Fjöldi þessara mála er orðin nokkuð fleiri en á sama tíma og í fyrra.

Af umferðarmálum er það að segja að einn aðili var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Í dag mun bætast við töluverður fjöldi gesta, en nánast fullbókað er í allar ferðir Herjólfs til Eyja í dag, sunnudag. Áætlar lögreglan að í brekkusöngnum í kvöld geti orðið um 14 þúsund manns. Veðurspáin er góð fyrir kvöldið.

Rétt fyrir miðnætti barst lögreglu tilkynning um mann sem misst hafði meðvitund í brekkunni. Nærstaddir voru læknir, hjúkrunarfræðingur, bráðatæknir ásamt lögreglumönnum og hófust þegar lífgunartilraunir sem héldu áfram á sjúkrahúsi, en báru ekki árangur. Um er að ræða heimamann og er hugur allra bæjarbúa hjá aðstandendum hans.

Á daglegum samráðsfundi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum með viðbragðsaðilum var farið yfir verkferla sem tengdust andlátinu og voru þeir sammmála um að viðbrögð allra sem að komu hafi verið skjót og rétt.