3 Ágúst 2014 12:00

Mjög rólegt var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum síðastliðna nótt og enginn alvarleg mál komu upp.  Mjög gott veður var í Herjólfsdal í nótt, milt í veðri og nánast logn. Þrír gistu þó fangageymslu, einn vegna líkamsárásar í Herjólfsdal en hann veitti manni áverka með því að skalla hann. Kæra liggur fyrir í því máli og verður hann yfirheyrður síðar í dag.  Annar vegna ölvunar og óspekt en sá þriðji fékk gistingu að eigin ósk.

Fíkniefnamálum fjölgaði  um 16 frá því um miðjan dag í gær og eru þau þá orðin 42 talsins á hátíðinni. Eins og í fyrrimálum sem komið hafa upp á hátíðinni eru þetta neysluskammtar. Fjöldi þessara mála er svipaður og undanfarin ár.

Af umferðarmálum er það að segja að þrír ökumenn voru teknir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og í einu málinu var ökumaðurinn einnig ölvaður. Þá voru ökumenn í tveimur þessara mála án ökuréttinda.

Gríðarlegur fjöldi var í brekkunni í Herjólfsdal á kvöldvökunni og er það samdóma álit heimamanna að aldrei hafi jafnmargir verið á kvöldskemmtunni á laugardagskvöldi. Veðurspáin fyrir daginn í dag er með ágætum þurrt og nokkuð hlýtt.

Enn mun gestum fjölga á þjóðhátíð 2014 þar sem Herjólfur mun sigla fjórar ferðir til Landeyjarhafnar og er fullbókað í þær allar í dag. Þá er einnig flug á Bakka og flugfélagið Ernir mun fara nokkarar ferðir í dag frá Reykjavík.