2 Ágúst 2015 11:25

Skemmtanahald í Herjólfsdal fór að mestu vel fram sl. nótt. Tveir gista þó í fangageymslu lögreglunnar eftir nóttina. Einn vegna skemmdaverka á  mjöltank Vinnslustöðvar við Friðarhöfn en lögrelumenn urðu hans varir við verknaðinn. Þessi aðili reyndi að hlaupa í burtu er hann varð var við lögreglumenn Lögreglumenn hlupu hann uppi og handtóku hann og vistuðu í fangageymslu. Þá var aðili handtekinn í Herjólfsdal fyrir að ráðast á gæslumann og skalla hann. Gæslumaðurinn hlaut ekki alvarlega áverka við höggið.

Af umferðarmálum er það að segja að einn ökumaður var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður var einnig án ökuréttinda.

Fíkniefnamálum fjölgaði nokkuð síðasta sólarhringinn og eru þau komin vel á sjötta tuginn það sem af er þessari hátíð en eins og áður hefur komið fram sinna sex lögreglumenn þessum málaflokki engöngu og eru með þrjá fíkniefnahunda. Öll málin eru svo kölluð neyslumál og það sem mest hefur verið haldlagt af efnum er amfetamín og kókaín.

Í dag bætist við fjöldi gesta á hátíðina og er þétt bókað með Herjólfi til Eyja. Einnig siglir farþegabáturinn Víkingur með farþega frá Landeyjarhöfn. Þá er flugfélagið Ernir með nokkrar ferðir til Eyja og einnig Flugfélag Íslands með tvær ferðir. Búast má þá við að þegar brekkusöngurinn verður í Herjólfsdal  í kvöld verði milli 13 til 15 þúsund manns í brekkunni. Veðurspáin fyrir kvöldið er góð.