31 Júlí 2016 14:25

Lögregla hafði í mörgu að snúast síðastliðinn sólarhring og sinnti mörgum verkefnum. Tveir gistu fangageymslur lögreglu vegna líkamsárása. Sex líkamsárásir voru tilkynntar lögreglu og eru til rannsóknar. Í alvarlegustu árásunum hlutu þolendur annars vegar kjálkabrot og hins vegar nefbrot og voru fluttir á Landspítala til aðhlynningar. Málin eru að mestu leyti upplýst.

Síðasta sólarhring haldlagði lögregla talsvert af fíkniefnum í 15 málum, grunur er um sölu í þremur þeirra. Fíkniefnaeftirlit er öflugt og komu þessu mál upp bæði á hátíðarsvæðinu og í bænum.

Viðbragðsaðilar funduðu á hádegi en viðbragð er gott og fjölmörg verkefni sem hafa komið inn á borð þeirra, þar á meðal nokkrir sem leituðu aðstoðar sálgæsluteymis vegna kvíða og ýmissa erfiðleika.

Búist er við að töluverður fjöldi gesta bætist við gestafjölda hátíðarinnar í dag þar sem fullt er í allar ferðir bæði með flugi og Herjólfi. Áætlað er að um 15.000 manns verði í brekkunni þegar hátíðin nær hámarki í brekkusöng á miðnætti.