16 Febrúar 2006 12:00

Ríkislögreglustjóri ákvað í maí 2005 að hrinda af stað sameiginlegum aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjórans og nokkurra lögregluliða gegn þekktum brotamönnum sem meðal annars höfðu staðið að innheimtu á fíkniefnaskuldum. Talsverð almenn umræða hafði verið um svonefnda handrukkara og ótta borgarans að leggja fram kæru hjá lögreglu.

Tilgangur aðgerðanna var að skipuleggja og samhæfa aðgerðir lögregluliðanna og þannig bregðast við ábendingum borgaranna með markvissari hætti og skapa öruggara umhverfi.

Settur var á stofn stýrihópur stjórnenda frá embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum í Reykjavík þar sem ákvarðanir voru teknar um aðgerðir, útfærslu þeirra og mat á árangri.

Aðgerðum lögreglu má skipta í tvo hluta:

Sértækar aðgerðir: Farið var í sjö skipulagðar aðgerðir, fjórar í Reykjavík, eina á Akureyri, eina í Keflavík og eina sameiginlega í Hafnarfirði og Kópavogi.  Að jafnaði tóku 10 til 15 lögreglumenn þátt í aðgerðunum og höfðu þeir afskipti af um 100 einstaklingum sem margir voru handteknir. Skipulagðar handtökur voru 22 og lágu nokkrar húsleitir þeim til grundvallar. Í þessum aðgerðum komu upp 28 fíkniefnamál og var lagt hald á vopn eða barefli í sjö tilvikum. Fimm héraðsdómar hafa fallið með sakfellingu í þeim málum og fleiri mál eru til rannsóknar eða í ákærumeðferð auk þess sem nokkrum fíkniefnamálum hefur lokið með fésektum.

Almennar aðgerðir: Almennum upplýsingum um þekkta brotamenn á þessu sviði var komið til lögreglumanna og telja má að fleiri mál hafi komið upp sem ekki eru tilgreind hér að framan.  Það er mat stýrihópsins að aðgerðir þessar hafi skilað árangri.

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að halda þessu samstarfi áfram og er það von lögreglunnar að þessar aðgerðir verði til þess að borgararnir telji sig öruggari að leggja fram kærur ef þeir sæta hótunum um ofbeldi af því tagi sem hér um ræðir.