18 Nóvember 2009 12:00
Málefni Árbæjar, Grafarholts og Norðlingaholts voru til umræðu á fundi sem var haldinn í nýrri þjónustumiðstöð í Hraunbæ 115 í Árbæ í gær. Fundinn sátu fulltrúar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lykilfólk úr fyrrnefndum hverfum. Tilgangurinn var að fara yfir þróun brota á þessum svæðum undanfarin ár en fundur sem þessi er haldinn árlega. Einnig var greint frá könnun um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum og verður vikið að því hér á eftir. Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, fór bæði yfir tölfræðina og greindi frá niðurstöðum áðurnefndrar könnunar. Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri sátu einnig fundinn og svöruðu spurningum fundarmanna sem voru hátt í þrjátíu talsins.
Farið var helstu breytingar sem hafa orðið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu en allar miða þær að því að auka sýnilega löggæslu. Einnig var sagt frá opnun nýrrar lögreglustöðvar á Krókhálsi 5b en þaðan er sinnt almennri löggæslu. Lögreglumennirnir eru á sólarhringsvöktum og fara í útköll á svæðinu en lögreglustöðin þjónar íbúum í Árbæ, Norðlingaholti, Grafarholti, Grafarvogi, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Á sama svæði er önnur lögreglustöð en átta rannsóknarlögreglumenn starfa á rannsóknarsviði sem er á Völuteigi 8 í Mosfellsbæ. Í framtíðinni er hinsvegar stefnt að því að byggja nýja lögreglustöð við Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Þegar af því verður mun starfsemin á Krókhálsi 5b og Völuteigi 8 flytjast þangað. Þess má geta að almennum fyrirspurnum og upplýsingum til lögreglu á þessu svæði er hægt að koma á framfæri í síma 444-1180 allan sólarhringinn og fyrirspurnum um rannsóknir mála í síma 444-1190 á skrifstofutíma. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu ber hinsvegar að hringja í 112.
Þegar rýnt er í tölfræðina fyrir síðasta ár kemur í ljós að auðgunarbrotum í Árbæ, Norðlingaholti og Grafarholti fjölgar í samanburði við árin á undan en svipuð þróun átti sér stað annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Innbrot er ein tegund auðgunarbrota en sjá má óheillaþróun í þeim efnum fram yfir mitt þetta ár. Undanfarið hefur þó dregið úr innbrotum og má það m.a. þakka að tekist hefur að hafa hendur í hári stórtækra innbrotsþjófa. Rannsóknir mála sem snúa að innbrotum á heimili eru alltaf sett í forgang hjá lögreglunni en þess má geta að þeim hefur fækkað hlutfallslega frá árinu 2006. Tölfræðina í heild sinni má nálgast með því að smella hér. Þegar kemur að viðhorfum íbúanna eru niðurstöðurnar um margt forvitnilegar en hér er vísað til könnunar um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í stuttu máli þá eru íbúar á þessu svæði ánægðir með lögregluna þegar spurt var hvernig henni gengi að stemma stigu við afbrotum í hverfunum en 94% íbúanna voru ánægðir með löggæsluna hvað það varðar. Á hinn bóginn töldu 44% aðspurðra í Árbæ og Grafarholti að aðgengi að lögreglunni væri ekki nógu gott af einhverjum ástæðum. Úr þessu vill lögreglan bæta en könnunina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.
Eins og fram hefur komið hefur verið opnuð ný lögreglustöð á Krókhálsi 5b en þess má geta að þegar fyrsta hverfisstöð lögreglunnar var opnuð í Reykjavík var það einmitt í Árbæ árið 1971. Um það er fjallað í bókinni Lögreglan á Íslandi – stéttartal og saga. Þar segir m.a. að tilgangur með stofnun þessarar hverfisstöðvar væri að auka öryggi íbúanna og bæta þjónustuna frá hendi lögreglunnar. Myndin hér að neðan var tekin við opnun hverfisstöðvarinnar en á henni eru, talið frá vinstri, Guðmundur Hermannsson, Óskar Ólason, Bjarki Elíasson, Magnús Einarsson, Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri, Úlfar Hermannsson og Rúdolf Axelsson.