29 Október 2014 12:00

Fundaherferð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hófst í síðustu viku, en á þeim er farið yfir stöðu mála og þróun brota á svæðum og/eða í einstökum hverfum. Alls eru þrettán fundir fyrirhugaðir, en sá fjórði í röðinni var haldinn á mánudag með fulltrúum Árbæinga og Grafarholtsbúa. Að venju var fjallað  sérstaklega um þjófnaði, innbrot, ofbeldisbrot og eignaspjöll, en umferðarmál voru að sjálfsögðu einnig til umfjöllunar.

Fundurinn var hinn gagnlegasti, en á honum, líkt og á mörgum öðrum svæðafundum, voru áðurnefnd umferðarmál nokkuð til umræðu. Sama má segja um nágrannavörslu, en þetta eru einmitt tvö af þeim málum sem eru íbúum ofarlega í huga. Lögreglan nýtti enn fremur tækifærið á fundinum og kynnti niðurstöður úr könnun, Þolendakönnun – viðhorf til lögreglu, sem embættið lét framkvæma í vor og sumar. Tölfræðina frá fundinum má annars kynna sér með því að smella hér.