18 Október 2007 12:00

Í frétt 24 stunda hinn 16. október sl. var til umfjöllunar að frá áramótum hefði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið kölluð til í um sjö þúsund skipti vegna umferðaróhappa sem hefði mátt ganga frá í hendur tryggingafélaga án þess að lögregla þyrfti að hafa af því afskipti.

Af þessu tilefni er rétt að taka fram að embætti ríkislögreglustjóra telur það meðal mikilvægra verkefna lögreglu að aðstoða og þjónusta borgara þegar umferðaróhöpp eiga sér stað.  Lögregla er sýnileg í umferðinni við slík störf auk þess sem aðkoma lögreglu við umferðaróhöpp er mikilvægur þáttur í að tryggja réttaröryggi og greiða götu borgaranna.  Lögreglunemum er jafnframt kennt að veita skuli ökumönnum aðstoð í þessum tilvikum sé þess óskað.

Ríkislögreglustjóri tekur undir sjónarmið formanns Landssambands lögreglumanna þessa efnis er birtust í 24 stundum 17. október sl.