15 Maí 2007 12:00

Árni Þór Sigmundsson hefur verið settur aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Árni Þór, sem hóf störf í lögreglunni í Reykjavík 1981, útskrifaðist frá Lögregluskóla ríkisins 1983. Fram til ársins 1987 var hann í umferðardeild en einnig um tíma almennri deild. Árni Þór var í almennri rannsóknardeild LR og síðan í ávana- og fíkniefnadeild þar til hann hóf störf við undirbúning opnunar nýrrar lögreglustöðvar í Grafarvogi 1991. Árni Þór veitti stöðinni daglega forstöðu þar til síðla árs 1997 er hann fór til starfa í auðgunarbrotadeild LR þar sem hann starfaði til ársins 2004. Þá varð hann aðalvarðstjóri á B-vakt og gegndi þeirri stöðu þar til hann var settur aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Árni hefur sinnt ýmsum sérverkefnum fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, m.a. greiningu á verkferlum, skráningu verklagsreglna og vinnulýsinga. Hann sat auk þess í vinnuhópum vegna sameiningar LH, LK og LR í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Má þar nefna starfshóp um vaktkerfi í sameinuðu embætti, vinnuhóp um þjónustuver, vinnuhóp um síbrotamenn og aðgerðir gegn síbrotastarfsemi.