5 Júlí 2011 12:00
Lögregluskóli ríkisins hefur gefið út ársskýrslu fyrir starfsemi skólans árið 2010. Í ársskýrslunni kemur m.a. fram að við rekstur skólans á árinu hafi áhersla verið lögð á að virða, eftir því sem hægt var, kröfu stjórnvalda um aðhald og sparnað. Starfsemin gekk almennt vel, afkoman var svipuð og áætlun gerði ráð fyrir og tekjuafgangur var í árslok.
Breytingar á skipulagi lögreglunnar í landinu og fyrirkomulagi lögreglunámsins voru á dagskrá stjórnvalda á árinu og kom það fram í frumvarpi til breytinga á lögreglulögum. Þar var meðal annars lögð áhersla á að draga úr launakostnaði vegna nemenda sem stunda almennt lögreglunám. Í samræmi við það var eðlilegt að fresta fyrirhugaðri inntöku nýnema á haustönn fram á vorönn 2011.
Árið 2010 var 21 nemandi brautskráður frá grunnnámsdeild skólans og á árinu voru mörg námskeið og fræðsludagar haldnir í framhaldsdeild skólans á sviði sérmenntunar og símenntunar eða alls 88 námskeið af 23 gerðum. Námskeiðsdagar voru 194 og þátttakendur samtals 952.
Í ársskýrslunni kemur fram að gera megi ráð fyrir að fjárveitingar til lögreglustofnana verði lækkaðar á næsta ári en vonast er til að í framhaldi af því verði stefnan eingöngu upp á við. Í Lögregluskóla ríkisins ríkir bjartsýni varðandi framtíðina og starfsmenn skólans vonast til að geta þjónað lögreglunni á Íslandi í samræmi við hlutverk skólans.
Ársskýrsluna í heild sinni er að finna hér á Lögregluvefnum