25 Júní 2010 12:00
Lögregluskóli ríkisins hefur gefið út ársskýrslu fyrir starfsemi skólans árið 2009. Í ársskýrslunni kemur m.a. fram að starfsemi skólans hafi verið að mestu hefðbundin árið 2009 og rekstrarkostnaðurinn á árinu innan fjárheimilda en vegna efnahagsástandsins hér á landi þurfti nokkuð að víkja frá fyrirliggjandi áætlunum fyrir árið.
Á árinu 2009 gerðist það í fyrsta sinn að lögregluliðin á landinu gátu ekki tekið við grunnnámsnemum í launaða starfsþjálfun. Að vel athuguðu máli var ákveðið að stytta starfsþjálfunartímann úr átta mánuðum í fjóra og skólinn greiddi dagvinnulaun nemenda þann tíma.
29 nemendur voru á fyrstu önn grunnnáms skólans á árinu, 38 nemendur í starfsþjálfun og 15 nemendur voru brautskráðir frá grunnnámsdeild skólans.
Óvenju mörg námskeið og fræðsludagar voru haldnir í framhaldsdeild skólans á árinu en að þessu sinni aðeins á sviði sérmenntunar. Haldin voru alls 82 námskeið á árinu af 32 gerðum. Námskeiðsdagar voru alls 216 og þátttakendur samtals 1173.
Í ársskýrslunni kemur fram að Lögregluskóli ríkisins hefur nú brautskráð alla þá grunnnámsnemendur sem hófu lögreglunám árin 2008 og 2009. Arnar Guðmundsson, skólastjóri, vonast til að inntökuferli fyrir almennt lögreglunám verði næsta haust og að nýnemar hefji nám við grunnnámsdeild skólans í byrjun janúar 2011 svo að eðlileg endurnýjun lögreglustéttarinnar geti átt sér stað.
Ársskýrsluna í heild sinni er að finna hér á Lögregluvefnum.