19 Júní 2012 12:00
Lögregluskóli ríkisins hefur gefið út ársskýrslu fyrir starfsemi skólans árið 2011. Í ársskýrslunni kemur m.a. fram að við rekstur skólans á árinu hafi verið lögð áhersla á að stofnunin gætti þess að verja kjarnastarfsemi sína, en jafnframt að leita allra leiða til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Starfsemin gekk almennt vel, afkoman var svipuð og áætlun gerði ráð fyrir og tekjuafgangur var í árslok.
Aðstæður sköpuðust til að hagræða í rekstri grunnnámsdeildar skólans með breytingum á lögreglulögum sem tóku gildi 1. mars 2011. Skólinn greiðir nemendum nú mánaðarlaun í starfsnámi en bóknámið er allt ólaunað. Með breyttu fyrirkomulagi er dregið nokkuð úr launakostnaði frá því sem verið hefur, auk þess sem skapast hefur meiri sveigjanleiki í starfsemi grunnnámsdeildarinnar og þar með afl til aukinna afkasta.
Jafnskjótt og Alþingi hafði samþykkt breytingar á lagaákvæðum varðandi tilhögun grunnnáms við skólann var tekin ákvörðun um að grunnnám 20 nemenda hæfist þann 1. mars 2011. Jafnframt var ákveðið, í ljósi þess hve seint á árinu námið hófst, að skipta því í fjórar annir, bóknám í fjóra mánuði, starfsnám í þrjá mánuði, bóknám í fjóra mánuði og starfsnám í einn mánuð. Brautskráning nemenda fór fram föstudaginn 23. febrúar 2012.
Aðsókn á námskeið sem boðið var upp á í framhaldsdeild skólans var í meðallagi. Von er til þess að betri tíð sé í vændum og að skólinn geti boðið lögreglumönnum að mennta sig og þjálfa frekar, einkum í rannsóknum sakamála og stjórnun.
Í ársskýrslunni kemur fram að undanfarin ár hafi starfandi lögreglumönnum fækkað nokkuð. Mál sé að linni og raunar sé orðið mjög brýnt að faglærðum lögreglumönnum verði fjölgað töluvert. Starfsmenn Lögregluskóla ríkisins eru bjartsýnir og hafa trú að í vændum séu góð ár, enda er vonin sú að góðar undirtektir fáist við hugmyndum skólana og nægilegt svigrúm til að geta þjónað lögreglunni á Íslandi í samræmi við hlutverk skólans og lögreglunnar.
Ársskýrsluna í heild sinni er að finna hér á Lögregluvefnum.