3 Júní 2014 12:00

Lögregluskóli ríkisins hefur gefið út ársskýrslu fyrir starfsemi skólans árið 2013. Í skýrslunni kemur m.a. fram að rekstur skólans, sem og flestra lögregluembætta, hafi verið fremur erfiður s.l. fimm ár vegna lækkunar fjárveitinga. Vegna þessa er fjöldi brautskráðra lögreglumannsefna einungis 18 að meðaltali á ári á því árabili en að meðaltali voru 36 brautskráðir á ári, næstu fimm árin þar á undan.

Einnig kemur fram í ársskýrslunni að undir lok ársins hafi gefist tækifæri til að hefja undirbúning að eflingu ýmissa sérnámskeiða á vegum framhaldsdeildar skólans og að fjölbreytt námskeiðahald hafi verið í gangi á undanförnum mánuðum.

Í maí 2014 samþykkti Alþingi að myndaður skuli starfshópur sem hafi það hlutverk að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og gera tillögu að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Starfshópurinn skal skila tillögum, ásamt greinargerð, til ráðherra ekki síðar en 1. ágúst 2014.

Í ársskýrslu Lögregluskóla ríkisins kemur fram að starfsmenn hans telja nauðsynlegt að vandað sé mjög til verka áður en ákveðið verði að gera róttækar breytingar á lögreglumenntun á Íslandi. Sérstaklega verði að gæta þess að rök fyrir slíkum breytingum séu málefnaleg og að niðurstaðan verði sannarlega betra lögreglunám en það sem nú er í boði við Lögregluskóla ríkisins.

Bjartsýni ríkir í Lögregluskóla ríkisins og starfsmenn hans trúa því og treysta að komandi ár verði farsæl fyrir lögregluna í landinu. Fyrirheit stjórnvalda gefi tilefni til bjartsýni og tilhlökkunar, þar sem tilkynnt hefur verið að fjármagn til lögregluliða landsins verði aukið, þótt það sé að vísu ekki sýnilegt hvað skólann varðar enn sem komið er.

Ársskýrsluna í heild sinni er að finna hér á Lögregluvefnum.