4 Júní 2009 12:00

Lögregluskóli ríkisins hefur gefið út ársskýrslu fyrir starfsemi skólans árið 2008. Í ársskýrslunni kemur m.a. fram að fagleg starfsemi í skólanum hafi verið í jákvæðri þróun og þeir lögreglunemar sem stunduðu námið almennt verið ánægðir og duglegir. Árið 2008 voru 77 lögreglunemar brautskráðir frá grunnnámsdeild skólans, fleiri en nokkru sinni áður á einu og sama árinu.

Starfsemi framhaldsdeildar Lögregluskóla ríkisins var árið 2008 öflug miðað við aðstæður. Forsenda starfseminnar byggir að mestu á getu lögregluembætta til að fjárfesta í menntun hinnar starfandi lögreglustéttar en hjá lögregluembættunum, eins og öðrum stofnunum ríkisins, fundu menn fyrir því er þrengja fór að á síðasta ári.

Það er mat skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, Arnars Guðmundssonar, að í þrengingum geti falist tækifæri. Skólinn ætli að halda áfram að efla lögregluna sem eina af grunnstoðum íslensks samfélags og kappkosta að standa sig vel í áframhaldandi þróun og eflingu lögreglumenntunar, ekki síst hvað varðar viðhalds- og framhaldsmenntun þeirra sem starfa í lögreglunni.

Á komandi misserum má vera að áherslur í löggæslu á Íslandi breytist og munu stjórnendur Lögregluskóla ríkisins, komi til þess, leggja höfuðáherslu á að eiga gott samstarf og samvinnu við þá sem málið varðar.

Ársskýrsluna í heild sinni er að finna hér á Lögregluvefnum.