21 Júní 2005 12:00

Ársskýrsla lögreglustjórans í Reykjavík fyrir árið 2004 er komin út.  Eins og jafnan eru margvíslegar upplýsingar um starfsemi lögreglunnar að finna í ársskýrslunni.  Fjöldi verkefna í dagbók var alls 78.766 sem jafngildir 216 verkefnum á hverjum sólarhring.  Fjöldi verkefna í málaskrá, en þar eru skráð öll kærð mál og allar lögregluskýrslur, var alls 42.580 eða að jafnaði 117 verkefni á sólarhring.  Ef stiklað er á stóru þá fækkaði innbrotum um 12 % en embættið setti sér það markmið að fækka þeim um 20 %.  Ofbeldisbrotum fækkaði um 18 % og fíkniefnabrotum fjölgaði um 3 %.  Mikil áhersla hefur verið lögð á endurmenntun og símenntum starfsmanna af hálfu embættisins, stéttarfélaga og Lögregluskóla ríkisins og alls sótti liðlega helmingur starfsmanna starfstengd námskeið á árinu.  Rekstur lögreglunnar í Reykjavík gekk ágætlega og var um 50 m.kr. afgangur á rekstri ársins en að teknu tilliti til halla frá fyrra ári var afgangur í árslok um 35 m.kr. eða um 1,5 % af heildarfjárheimildum embættisins.