2 Maí 2013 12:00

Út er komin ársskýrsla ríkislögreglustjóra fyrir árið 2012. Í fyrsta skipti er skýrslan einungis gefin út með rafrænum hætti á vefnum. Í skýrslunni koma fram upplýsingar um starfsemi embættisins á liðnu ári og þau mörgu og fjölbreyttu verkefni sem starfsfólk þess fæst við.

Samstaða um stöðu og fjárþörf lögreglunnar

Í formála skýrslunnar víkur Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri að niðurskurði á fjárveitingum til lögreglunnar á undanliðnum árum. Ríkislögreglustjóri segir frá fundum sínum með lögregluliðum landsins árið 2012 en í kjölfar þeirra var ákveðið að auka framlög til lögreglunnar um 200 milljónir króna. Jafnframt segir hann að fulltrúar stjórnmálaflokka og lögreglunnar séu nú sammála  um stöðu, fjárþörf og framtíðarskipan lögreglunnar.

Í ársskýrslunni kemur fram að árið 2012 fækkaði unnum ársverkum lögreglumanna um 6% borið saman við árið á undan.  Þann 1. febrúar 2012 voru alls 656 lögreglumenn starfandi á landinu.

Fjórum sinnum almannavarnaástand    

Að vanda var unnið að fjölmörgum verkefnum í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra en frá september til áramóta 2012 var fjórum sinnum lýst yfir almannavarnaástandi á landinu. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er þátttakandi í stóru samevrópsku rannsóknarverkefni sem nefnist FutureVolc. Markmiðið með verkefninu er að þróa nýjar leiðir til að meta eldgos, forboða þeirra, útbreiðslu gosefna og jafnframt að samþætta rannsóknir á eldfjöllum, vöktunarkerfi þeirra, viðbúnað og viðbrögð.

Í ársbyrjun 2012 var gefin út skýrsla greiningardeildar um mat á skipulagðri glæpastarfemi. Þá skilaði ríkislögreglustjóri lögbundinni skýrslu til Persónuverndar um innra eftirlit með Schengen-upplýsingakerfinu á Íslandi fyrir árin 2008-2011. Í október fór fram úttekt SCH-EVAL-nefndar Evrópusambandsins á skráningar- og upplýsingakerfum Schengen-samstarfsins.

Hundar nýttir í fleiri  málum

Fíkniefna- og sprengjuleitarhunda -teymi ríkislögreglustjóra vann  ötullega að uppbyggingu og eftirliti fíkniefnalöggæslu á árinu 2012. Hundarnir eru nú nýttir í sífellt fleiri málum og skilningur lögreglumanna á notagildi þeirra fer vaxandi.  Sex lögregluembætti ráða nú yfir hundum til fíkniefnaleitar.

Ársskýrslu ríkislögreglustjóra má nálgast hér