22 Maí 2015 15:04

Út er komin ársskýrsla ríkislögreglustjóra fyrir árið 2014. Í skýrslunni koma fram upplýsingar um starfsemi embættisins á liðnu ári og þau mörgu og fjölbreyttu verkefni sem starfsfólk þess fæst við.

Starfsmenn lögreglu

Þann 1. febrúar 2014 voru alls 653 lögreglumenn starfandi á landinu, þar af 83 konur. Fjöldi borgaralegra starfsmanna við störf var 259, þar af 167 konur.

Spjaldtölvur í lögreglubifreiðar og breytingar á umdæmum lögreglu

Haldið var áfram vinnu við spjaldtölvur í lögreglubifreiðar á árinu 2014. Sjö manna teymi forritara frá fyrirtækinu Blue Fragments kom til að smíða smáforrit til notkunar í Windows 8 spjaldtölvur sem forritarar RLS tóku síðan við að þróa. Þá fór talsverð vinna í undirbúning vegna breytinga á lögregluumdæmum um áramótin 2014-2015. Stofna þurfti ný umdæmi í upplýsingakerfum, ganga frá aðgangsstýringum o.fl.

Jarðhræringar og eldgos

Allt frá því að óvissustigi var lýst yfir um miðjan ágúst til loka árs 2014 var unnið sleitulaust með viðbúnað og viðbrögð að leiðarljósi vegna jarðhræringanna í Bárðarbungu. Viðbúnaður beindist aðallega að hugsanlegum flóðum og öskufalli vegna eldgoss undir jökli og hættulegum gastegundum frá eldgosinu í Holuhrauni.

Jafnréttismál lögreglunnar

Í maí 2014 setti ríkislögreglustjóri á stofn fimm manna utanaðkomandi fagráð sem taka á til umfjöllunar mál er varða beina og óbeina mismunun, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan lögreglunnar.

Ársskýrslu ríkislögreglustjóra má nálgast hér