8 Mars 2013 12:00

Asmalyfjum var stolið úr bifreið konu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Konan hafði skilið bifreiðina eftir ólæsta þegar hún skaust heim til sín. Þegar hún kom til baka eftir tíu mínútur var veski hennar horfið, ásamt lyfjunum, greiðslukorti og ökuskírteini. Konan lét þegar loka kortinu, en var uggandi vegna lyfjanna.

Þá var lögreglu tilkynnt um þjófnað úr annarri bifreið í morgun. Úr henni var stolið DVD-spilara. Lögreglan rannsakar málin.

Ekið á blómaker og ljósastaur

Ökumaður, sem ók bifreið sinni á ljósastaur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gærkvöld hlaut sár á báðum höndum eftir stýrið, auk þess sem hann kenndi eymsla eftir öryggisbeltið. Bifreiðin hafði lent í snjóruðningi í vegkanti og missti ökumaðurinn við það stjórn á henni með fyrrgreindum afleiðingum.

Annar ökumaður ók á endaði för sína uppi á steyptum kanti inni á lóð í Njarðvík. Dráttarbifreið var fengin til að losa bílinn. Þriðja óhappið varð með þeim hætti að bifreið var ekið utan í blómaker sem staðsett er við Frímúrarastúkuna Sindra. Síðarnefndu ökumennirnir tveir sluppu án meiðsla.

Sjá fleiri fréttir á F-book lögreglunnar á Suðurnesjum