21 Nóvember 2008 12:00

Hafið er sameiginlegt átak lögregluliða á Suðvesturlandi gegn ölvunarakstri en það mun standa til áramóta. Skipulegu eftirliti verður haldið úti á ýmsum tímum sólarhrings og á mismunandi stöðum. Markmið átaksins er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunarakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni. Minnt er á viðvörunarorðin Eftir einn ei aki neinn en þau eiga alltaf við. Átakið nær að sjálfsögðu einnig til aksturs undir áhrifum fíkniefna en afleiðingar þess geta sömuleiðis verið skelfilegar.

Þá stefnir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að auknu sýnilegu eftirliti á og við stofnbrautir í sínu umdæmi, inni í íbúðahverfum og við verslunarmiðstöðvar. Þannig muni lögreglan leggja sitt af mörkum til að íbúar og aðrir sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu geti átt ánægjulegar stundir við jólaundirbúning á komandi vikum.