1 Desember 2006 12:00

Þrátt fyrir verulegan árangur í baráttunni gegn ölvunarakstri á undanförnum árum er ljóst að betur má ef duga skal. Árin 2001-2004 fækkaði þeim ökumönnum sem teknir voru fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík. Því miður snerist þessi þróun við í fyrra en þá voru 856 teknir fyrir þetta alvarlega brot. Engin breyting verður í þessum efnum á yfirstandandi ári. Nú þegar hafa ámóta margir verið teknir fyrir ölvunarakstur og á öllu síðasta ári.

Sem fyrr leggur lögreglan í Reykjavík mikla áherslu á að stöðva ölvaða ökumenn. Það á við um alla mánuði ársins en í desember eru lögreglumenn ekki síst á varðbergi og ökumenn mega búast við því að verða stöðvaðir víða um borgina. Eins og áður verður haldið úti mjög öflugu eftirliti sem mun m.a. beinast að umferð við verslunarkjarna og veitingahús. Það er alkunna að margir gera sér glaðan dag í desember og vitað er um marga starfsmannahópa sem koma saman á þessum árstíma. Þá er líka mikilvægt að hafa hugfast að ganga hægt um gleðinnar dyr og muna að akstur og áfengi fer aldrei saman.