12 September 2007 12:00

Vegna fréttaflutnings um meint harðræði lögreglumanna í sérsveit ríkislögreglustjórans þykir ástæða til að benda á að viðbrögð lögreglumanna í þessu lögregluverkefni voru í einu og öllu í samræmi við hefðbundið verklag lögreglu undir slíkum kringumstæðum.  Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hafði borist tilkynning um skothvelli í húsi í vesturbæ Kópavogs en jafnframt fylgdi tilkynningu að heimilisofbeldi hefði áður átt sér stað á þessum vettvangi. Hinir handteknu voru á leið frá vettvangi þegar lögregla kom á staðinn. Við eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að tilkynning átti ekki við rök að styðjast og viðkomandi einstaklingar ekki tengdir málinu. Það skal áréttað að lögreglu ber að haga viðbrögðum í samræmi við alvarleika tilkynninga og var það gert í þessu máli.