22 Maí 2003 12:00

Í frétt á Stöð 2 hinn 21. maí 2003 segir að margir háttsettir menn innan lögreglunnar og stjórnkerfisins, sem fréttamaður Stöðvar 2 hafi rætt við, hefðu gagnrýnt að dómsmálaráðherra hafi sýnkt og heilagt styrkt embætti ríkislögreglustjóra á meðan lögregluembætti á landsbyggðinni standi illa og mæti litlum skilningi ráðherra. Ummæli þessi eru ómakleg, sérstaklega með vísan til þess sem haft er eftir lögreglustjóranum í Reykjavík í Morgunblaðinu í dag (22.05.03) þess efnis, að aðhaldsaðgerðir lögreglunnar í Reykjavík, sem eru tilefni fréttar Stöðvar 2 um rekstrarvanda lögreglunnar í Reykjavík, séu einungis tilkomnar vegna mistaka embættisins er farið var fram úr  fjárheimildum.

Rekstrarvandi lögreglustjórans í Reykjavík er á ábyrgð lögreglustjórans þar og er fráleitt að það embætti sé tengt rekstri embættis ríkislögreglustjóra. Embætti ríkislögreglustjóra er ekki rekið á kostnað lögreglunnar í Reykjavík eða annarrar löggæslu í landinu. Það er rekið innan ramma fjárlaga og stækkun embættisins er vegna verkefna sem því hafa verið falin.

Sérstök athygli er vakin á því að staðreyndum um þróun og vöxt embættis ríkislögreglustjóra frá árinu 1997 er gerð rækileg skil í skýrslu dómsmálaráðherra um stöðu og þróun löggæslunnar á Íslandi, sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta ári. Þar kemur fram að embætti ríkislögreglustjóra hefur styrkt löggæsluna í landinu á margvíslegan máta.

Það er því með öllu ólíðandi að þrátt fyrir að réttar upplýsingar liggi fyrir um þessi atriði sé sífellt verið að gefa í skyn eða fullyrða að embætti ríkislögreglustjóra hafi vaxið á kostnað lögreglunnar í Reykjavík eða löggæslunnar í landinu, og jafnvel á kostnað öryggis almennings. Umræða af þessu tagi byggist á mikill vanþekkingu, bæði á rekstri lögreglunnar í heild og hlutverki og rekstri embættis ríkislögreglustjóra. Eðlilegast væri að hinir ónafngreindu upplýsingagjafar Stöðvar 2 í fyrrnefndri frétt kæmu fram undir nafni og settu mál sitt fram með  málefnalegum hætti.

Kynntu þér skýrslu dómsmálaráðherra hér >>