5 September 2019 09:24

Embætti ríkislögreglustjóra vill koma því á framfæri vegna fréttar RÚV frá því í kvöld að þann 5. júní sl. óskaði ríkislögreglustjóri eftir því við Ríkisendurskoðanda að gerð yrði úttekt á rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra með sérstakri vísan í þær breytingar sem áttu sér stað á reikningsskilum opinberra aðila með nýjum lögum um opinber fjármál.  Þá ber að benda á að á fundi ríkislögreglustjóra með lögreglustjórum þann 7. júní sl. var það sameiginleg niðurstaða aðila að núverandi fyrirkomulag bílamála lögreglunnar hafi runnið sitt skeið á enda.

Frétt RÚV er því byggð á sérkennilegum misskilningi í ljósi þess að ofangreint kemur fram á vef ríkisútvarpsins og setur þannig “frétt” kvöldsins í furðulegt ljós. Þá hafnar embættið því alfarið að bílamiðstöð hafi oftekið gjald sem nemur hundruðum milljónum króna af lögregluembættunum. Þær tölur eru algerlega úr lausu lofti gripnar og eiga sér enga stoð.

Sjá nánar fréttatilkynningu embættisins frá 6. júní sl. hér að neðan og einnig er vísað í fréttir RÚV fá því í júní sl.

 

Fréttatilkynning
6. júní 2019

Ríkislögreglustjóri fer fram á stjórnsýsluendurskoðun

Ríkislögreglustjóri óskaði í gær eftir því við ríkisendurskoðanda að fram fari stjórnsýsluendurskoðun á rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sem á og rekur ökutæki lögreglunnar í landinu. Samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda felur stjórnsýsluendurskoðun í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmið endurskoðunarinnar er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt. Þá skal einnig líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, þá löggjöf sem gildir um hana og góða og viðurkennda starfshætti. Jafnframt óskaði ríkislögreglustjóri sérstaklega eftir því að skoðað verði hvaða áhrif framkvæmd laga um opinber fjármál nr. 123/2015 hefur haft á rekstur og endurnýjun ökutækja lögreglu. Þá er óskað eftir því að skoðaðar verði heimildir lögreglunnar til þess að taka á leigu bílaleigubifreiðar til notkunar, auðkenna sem lögreglubifreiðar og skrá til neyðaraksturs.