21 Júlí 2011 12:00

Í  gær birtust í DV og dv.is þau ósannindi að ríkislögreglustjóri hafi samþykkt að Morgunblaðið hleri samskipti lögreglu, slökkviliðs og sjúkraliðs í gegnum Tetra fjarskiptakerfið. Þessi ósannindi setti blaðið fram þrátt fyrir að hafa daginn áður spurst fyrir um það hjá embættinu hvort það hefði vitneskju um að Morgunblaðið hefði slíkan aðgang og fengið þau svör að svo væri ekki, en DV upplýsti lesendur sína ekki um svar embættisins.

Ríkislögreglustjóri lítur það alvarlegum augum að fjölmiðlum sé veittur slíkur aðgangur eins og sjá má af því að árið 2006 vék hann lögreglumanni úr embætti fyrir að hafa heimildarlaust afhent Tetra talstöð ljósmyndara á eigin vegum (freelance) að láni um óákveðinn tíma í því skyni að veita ljósmyndaranum aðgang að fjarskiptum lögreglunnar á lokuðum rásum í þágu starfs hans, en ljósmyndarinn seldi myndir til birtingar í 365 Ljósvakamiðlum. Vegna þessa brots í starfi var lögreglumaðurinn dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. (Dómur uppkveðinn 26. apríl 2006, Sakadómsmálið nr. 28/2006).

Ítarefni:

Þann 19. júlí barst embætti ríkislögreglustjóra svohljóðandi fyrirspurn frá blaðamanni DV:

„Ég hef heimildir fyrir því að ljósmyndari hjá Morgunblaðinu hafi aðgang að tetra-kerfinu og fái þannig beinar upplýsingar um útköll og annað sem er í gangi. Hefur embættið vitneskju um slíkt? Væri slíkt eðlilegt að mati embættisins? Álítur embætti Ríkislögreglustjóra að fjölmiðlamenn eða aðrir óviðkomandi sem hlusti á samskipti inni á tetra-kerfinu séu að hlera samskipti lögreglunnar? Geturðu tahugað (sic) þetta fyrir mig?“

Embætti ríkislögreglustjóra svaraði fyrirspurninni samdægurs á eftirfarandi hátt:

„Óviðkomandi, þ.á.m. fjölmiðlafólki,  er ekki heimilaður aðgangur að talhópum lögreglunnar innan Tetrakerfisins.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur ekki veitt slíka heimild og er ekki kunnugt um neinn sem hefur þennan aðgang.

Kostur Tetrakerfisins er að ekki geta aðrir hlustað á fjarskiptin en þeir sem hafa aðgang að þeim talhópum sem þeir hafa yfir að ráða.“

Þann 20. júlí birtist eftirfarandi í Sandkorni DV og á dv.is með fyrirsögninni Mogginn og hleranir:

„Hleranir íslenskra fjölmiðla hafa komist á dagskrá eftir að blaðamenn News of the World urðu uppvísir að óhæfu á því sviði. Ólafur Arnarson bloggari rifjaði upp í samhengingu að hann hringdi á sínum tíma í Styrmi Gunnarsson ritstjóra sem upplýsti hann um að farsímar væru hleraðir og sleit samtalinu. Löngum hefur verið um það skrafað að ljósmyndadeild Moggans hleri samskipti lögreglu, slökkviliðs og sjúkraliðs. Sagan segir að þar sé um að ræða svokallað Tetrakerfi og hlerunin fari fram með samþykki Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra.“