31 Mars 2003 12:00

Vísað er til umfjöllunar Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS) sem birt hefur verið á heimasíðu félagsins um skráningu skotvopna og fleira, og umfjöllun fjölmiðla í framhaldi af því.  Helst má skilja á þessu erindi að hér ríki ófremdarástand í skráningu skotvopna, og það hafi skapast vegna stofnunar embættis ríkislögreglustjóra 1. júlí 1997 en áður hafi allt verið í himna lagi með þessi mál. 

Hið rétta er að eldra fyrirkomulag var að ýmsu leyti mjög ófullkomið þar sem samt. 26 lögregluembætti héldu hvert sína skotvopnaskrá en í vopnalögum (lög nr. 16/1998) er kveðið á um eina samræmda skotvopnaskrá fyrir allt landið.  Lögin tóku ekki gildi fyrr en 1. sept. 1998 og reglugerð um skotvopn, skotfæri o.fl. (rgl. nr. 787/1998) var svo undirrituð 21. des. 1998.  Í greinagerð með frumvarpi til vopnalaga (sbr. þingskjal nr. 175 frá 122. löggjafarþingi 1997-1998) var m.a. haft samráð við SKOTVÍS við gerð lagafrumvarpsins.

Með umburðarbréfi ríkislögreglustjórans til allra lögreglustjóra, dags. 11. sept. 1998 var lögreglustjórum gert viðvart um fyrirhugaðar breytingar, en þeim jafnframt falið að hafa fyrst um sinn framkvæmd við skotvopnaskráningu og fl. með sama hætti og verið hafði, m.a. vegna þess að hanna þyrfti nýtt tölvuforrit fyrir hina nýju skrá.  Strax var hafist handa við að afla upplýsinga frá öllum lögregluembættum um skotvopnaskrár þeirra og kom þá í ljós að þær voru æði misjafnar að gæðum og ljóst að víða vantaði fullnægjandi upplýsingar um eigendur, feril skotvopna og ekki síst upplýsingar um gerð vopnanna og sum vopn skráð hjá fleirum en einum.  Samkv. nýju lögunum og reglugerðinni er krafist mun nánari upplýsinga en áður um hvað skuli skráð og því ljóst að ekki var hægt að yfirfæra gömlu skrárnar óbreyttar inn í hið nýja kerfi, enda  yrði skotvopnaskráin að öllu leyti sniðin eftir lögunum og reglugerðinni.  Jafnframt var ljóst að það myndi taka einhver ár að leiðrétta allar fyrri skráningar til samræmis við þær upplýsingar sem nú er krafist.

Ákveðið var að leita tilboðs í gerð forrits fyrir landskrá skotvopna, en fyrir útboðslýsingu var víða leitað fanga m.a. á hinum Norðurlöndunum um uppbyggingu svona kerfis.  Það var svo þann 22. sept. 1999, sem ríkislögreglustjórinn skrifaði undir samning við hugbúnaðarfyrirtækið Kögun um smíði skotvopnaskrár. 

Byrjað var að færa inn í nýju skrána um mitt ár 2000.  Áður hafði þeim starfsmönnum lögregluembætta sem hafa þann starfa að skrá skotvopn verið gefinn kostur á að sækja námskeið í notkun kerfisins og í framhaldi hafa starfsmenn ríkislögreglustjóra farið um landið og leiðbeint um notkun kerfisins hjá öllum embættum.  Til að flýta fyrir að koma skránni í gagnið var opnuð leið í kerfinu fyrir embættin til að koma öllum vopnum þar inn þótt svo upplýsingar væru misvísandi um þau en jafnframt lagt fyrir að færa leiðréttingar í kerfið við fyrsta tækifæri, t.d. þegar gefa þyrfti út ný skírteini vegna endurnýjunar á leyfum eða vegna kaupa á nýjum skotvopnum.

Þrátt fyrir mikla vinnu við lagalegan og tæknilegan undirbúning  fyrir gerð skrárinnar hefur ýmislegt komið upp sem þurft hefur að laga eftir á eins og við mátti búast.  M.a. hafa verið gerðar breytinar á kerfinu til þess að auðvelda og flýta skráningu og aðgangur skráningaraðila aukinn til þess að þeir geti sjálfir bætt inn upplýsingum um vopn í miðlægar stofnskrár. Haldinn hefur verið fundur með þeim sem hafa starfsleyfi til að flytja inn og versla með skotvopn og skotfæri og þeim kynnt framkvæmd við skotvopnaskráninguna.  Gerður var góður rómur að þessum fundi, og rétt að geta þess að regluleg samskipti starfsleyfishafa og embættis ríkislögreglustóra hafa almennt verið mjög góð í þessu ferli öllu.  Meðal ábyrgðarmanna fyrir starfsleyfum sem sóttu fundinn voru menn úr hópi skotíþrótta- og sportveiðimanna, t.d. formaður Skotfélags Reykjavíkur.  Þá skal þess getið að formaður Skotfélags Kópavogs er kunnugur málum því hann er starfsmaður leyfadeildar hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að árið 2001 var formanni SKOTVÍS boðið að koma í heimsókn til embættis ríkislögreglustjóra og kynna sér kerfið og ræða við þá starfsmenn sem sjá um það, en hann hefur ekki nýtt sér það boð einhverra hluta vegna.  

Í greininni sem hér er fjallað um er aðallega fundið að samskiptum einstaklinga við lögregluembætti og seinagangi við skráningu skotvopna og í því sambandi rakin raunarsaga manns.  Ríkislögreglustjórinn hefur ekki tök á að svara fyrir einstök tilvik, en hvetur fólk sem er óánægt með þjónustu embættanna að leggja fram kvartanir við viðkomandi lögreglustjóra því það er ekki ríkislögreglustjóri sem gefur út skotvopnaskírteini, heldur eru það lögreglustjórar hver í sínu umdæmi. Af þessu tilefni mun ríkislögreglustjórinn rita bréf til allra lögreglustjóra þar sem þeir verða beðnir að huga sérstaklega að því, hver hjá sínu embætti, hvernig afgreiðslu skotvopnaleyfa er háttað og bæta úr, sé þörf á slíku.

Þá er í greininni fundið að hinum ýmsu gjöldum í tengslum við leyfi og skráningar en innheimt gjöld eru öll í samræmi við lög um aukatekjur ríkissjóðs nema gjald fyrir skotvopnanámskeið sem á að vera í samræmi við útlagðan kostnað embættanna við námskeiðin.