3 Desember 2003 12:00

Í dag miðvikudaginn 3. desember gekk dómur í máli efnahagsbrotadeildar, Ríkislögreglustjórans á hendur þremur mönnum. Tveir mannanna voru sakfelldir en einn sýknaður. Þeir tveir dæmdu voru sakfelldir annar fyrir umboðssvik, brot gegn lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hlaut hann 12 mánaða skilorðsbundin dóm en hinn fyrir peningaþvætti og hlaut hann 3 mánaða skilorðsbundinn dóm. Auk þess sem dæmdu var gert að greiða skaðabætur og þola upptöku ólögmæts ávinnings eins og greinir hér á eftir.

Annar maðurinn var fyrrum sjóðsstjóri hjá Kaupþingi hf. og annaðist sjóðsstýringu fyrir nokkra viðskiptavini Kaupþings hf. þar á meðal Lífeyrissjóð Austurlands sem bankinn hafði yfirtekið reksturinn á um mitt ár 2000. Brot sjóðstjórans fólust í að hann keypti hlutabréf í 4 skipti í skráðum jafnt sem óskráðum hlutafélögum í flestum tilfellum í nafni vinar síns en einu tilfelli í nafni bróður síns. Síðan lét hann sjóði sem hann fór með eignastýringu fyrir kaupa sömu hlutabréf, oftast samdægurs, eftir að hafa bætt ofan á gengið sem nam u.þ.b. 15 – 30 %. Auk þessa seldi ákærði í eitt skipti hlutabréf í Íslandssíma í eigu Lífeyrissjóðs Austurlands til vinar síns á 30% lægra verði, en sem nam markaðsgengi sem hann fékk fyrir bréfin þegar seldi þau aftur samdægurs og hirti sjálfur mismuninn. Samanlagt nam ávinningur dæmda rúmum kr. 4,4 milljónum. Dæmda var gert að greiða Kaupþingi Búnaðarbanka hf. skaðabætur sem nam tjóni sjóðanna sem bankinn hafði orðið að bæta þeim.

Auk þess að hafa með framangreindri hegðun gerst sekur um umboðssvik samkvæmt. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, var sjóðstjórinn dæmdur fyrir brot gegn lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129, 1997. En í 36. gr. laganna frá 1997, er lagt bann við því að lífeyrissjóðir fjárfesti í óskráðum verðbréfum umfram 10% af heildareignum sjóðsins. Dæmdi hafði þegar hann framdi tvö framangreindra brota í október og nóvember 2000, látið Lífeyrissjóð Austurlands kaupa hlutabréf í Netverki hf. sem ekki voru skráð í Kauphöllina. Eftir úttekt á eignastöðu Lífeyrissjóði Austurlands sem lauk skömmu seinna kom í ljós að eign sjóðsins í óskráðum bréfum var nær 30% en 10% af heildareignum eins og lögin gera ráð fyrir.

Athyglisvert er að þetta er í fyrsta skipti sem maður er ákærður og dæmdur fyrir brot á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Auk þess sem dómurinn telur að þrátt fyrir að ekki hafi legið fyrir á þeim tíma sem brot var framið hver eign sjóðsins var í óskráðum bréfum, geti dæmdi ekki borið það fyrir sig. Dómurinn geymir skýr skilaboð til þeirra sem gegna ábyrgðarstöðum eins og dæmdi um að þeir kunni að sæta refsiábyrgð láti þeir lífeyrissjóði sem þeim hefur verið treyst fyrir fjárfesta umfram 10% markið. Dómurinn telur að dæmdi geti ekki borið fyrir sig að upplýsingar hafi skort, og má skilja dóminn svo að hér sé um að ræða undantekningarreglu sem beri að skýra þröngt þannig að einungis sé heimilt að kaupa óskráð bréf fyrir lífeyrissjóði, að fyrirliggjandi sé að eign þeirra í óskráðum bréfum sé örugglega ekki komin upp fyrir 10% af heildareign. Umrædd regla er sett til að tryggja að lífeyrissjóðir landsmanna séu ekki notaðir í áhættufjárfestingar, til að kaupa verðbréf óskráðra félaga sem yfirleitt eru ótraustari eins og dæmin sanna, en Netverk hf. er nú gjaldþrota.

Annað sem er athyglisvert við dóminn er að ákærði er dæmdur fyrir markaðsmisnotkun en þetta er í fyrsta skipti sem ákært og dæmt er fyrir slíkt brot á Íslandi.  Dæmdi framdi brotin með því að gera í tengslum við tvö af framangreindum brotum tilboð inn í kauphöll um kaup í nafni sjóða sem honum var treyst fyrir þar sem hann bauð hærra en markaðsvirði í því skyni að “hífa verðið upp” eins og dæmdi lýsti því sjálfur. Slík hegðun er lýst refsiverð samkvæmt núgildandi lögum nr. 33, 2003 um verðbréfaviðskipti og eldri lögum nr. 13, 1996 um sama efni. Enda er slík hegðun til þess fallin að búa til verð á hlutabréfum sem ekki á sér stoð í eðlilegum viðmiðum s.s. gengi félags, framboði og eftirspurn á markaði, væntingum um framtíðar afkomu o.s.f. Auk þess sem þetta veldur hættu á tjóni fyrir þá sem kaupa bréfin á þeim tíma sem verð þeirra er uppi og slík hegðun er til þess fallin að grafa undan tiltrú fjárfest á markaðnum svo einhver dæmi séu nefnd.

Hinn dæmdi maðurinn var vinur sjóðstjórans sem hafði aðstoð hann við að millifæra andvirði bréfanna og þáði þóknun fyrir. Hluti af andvirði bréfanna var ágóði sjóðstjórans, en sú hegðun að aðstoða brotamann við að koma undan ágóða af brotum með því að taka við geyma eða flytja ágóðann, telst vera peningaþvætti og er refsiverð samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga. Ávinningur dæmda var rúmlega kr. 300.000 og var hann dæmdur til að þola upptöku á þeim ágóða sínum. Athygli vekur að dómurinn vísar til þess að dæmdi hafði fengið, sem starfsmaður Íslandsbanka hf., tilsögn um skyldur sínar í tengslum við lög um varnir gegn peningaþvætti. Umræddri fræðslu er haldið úti af starfsmönnum efnahagsbrotadeildar, Ríkislögreglustjórans fyrir starfsmenn fjármálastofnana í því skyni að kynna þeim skyldur sínar til að tilkynna til efnahagsbrotadeildar allar grunsamlegar peningafærslur sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og kunna að benda til þess að verið sé að framkvæma peningaþvætti.

Enn fremur er athyglisvert að upphaf málsins var með því að Íslandsbanki hf. tilkynnti til efnahagsbrotadeildar, Ríkislögreglustjórans, um grunsamlegar peningafærslur framangreinds starfsmanns bankans. Ólíklegt er að þetta mál hefði nokkurn tíman verið upplýst nema vegna árvekni annars starfsmanns Íslandsbanka hf. sem þekkti skyldur sínar samkvæmt lögum um varnir gegn peningaþvætti um að tilkynna sem síðan leiddi til þess að efnahagbrotadeild tók til við að rannsaka hvaðan peningarnir voru komnir og komst þá á slóð sjóðstjórans og gat upplýst málið. Ber að þakka starfsmanni Íslandsbanka hf. og bankanum fyrir þeirra framlag í málinu.

Mál þetta er því árangur af starfi efnahagsbrotadeildar, Ríkislögreglustjórans, í tvennum skilningi annars vegar með fræðslu til starfsmanna bankanna um skyldur þeirra til að tilkynna og gott samstarf þar um, og hins vegar með því að fylgja eftir tilkynningu sem gerð var á sama grundvelli og upplýsa um brot dæmdu.

f.h. RLS

HMG