28 Maí 2012 12:00

Sautján ökumenn reyndust aka yfir leyfilegum hámarkshraða við umferðareftirlit lögreglunnar á Suðurnesjum nú um helgina. Ellefu ökumenn gerðust brotlegir með þeim hætti á aðeins þremur klukkustundum í kringum miðnætti í nótt. Ökumennirnir sautján mældust allir á of miklum hraða á Reykjanesbraut. Einn þeirra var 18 ára piltur, sem mældist á 156 kílómetra hraða. Hann þarf að greiða 140 þúsund krónur í sekt og fær þrjá punkta í ökuferilsskrá.

Ölvaður reyndi að stinga af

Lögreglan á Suðurnesjum hafði í fyrrinótt afskipti af tveimur ökumönnum sem grunaðir voru um ölvun við akstur. Annar þeirra sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu, en endaði aksturinn með því að keyra á gangbrautarmerki. Hann stökk út úr bílnum og reyndi að stinga lögreglumennina af, en var handtekinn og færður á lögreglustöð.  Umræddir ökumenn voru báðir sviptir ökuréttindum til bráðabirgða.

Hrakti innbrotsþjófa á flótta

Húsráðanda í Reykjanesbæ brá heldur í brún þegar hann kom heim til sín aðfararnótt laugardagsins. Þar voru þá fyrir í forstofunni tveir bláókunnugir karlmenn. Þeir tóku báðir til fótanna þegar þeir urðu húsráðandans varir og hurfu út í nóttina. Annar þeirra reyndist hafa farið inn um baðglugga við hlið forstofunnar og var að hleypa hinum inn um útidyrahurðina, þegar að þeim var komið.  Þeir höfðu ekki haft ráðrúm til athafna áður en þeir hröktust á brott.

Peningar fundust í flugvél

Tíu þúsund krónur í norskum seðlum, sem samsvarar um tvö hundruð og fimmtán þúsundum íslenskra króna,  fundust þegar verið var að þrífa eina af flugvélum  Iceland Express í gærdag. Fundust fjármunirnir við eitt sæti flugvélarinnar. Lögreglunni á Suðurnesjum var gert viðvart um fundinn og eru peningarnir nú í vörslu hennar.

Neftóbak í salerni

Öryggisgæsla í Flugstöð Leifs Eiríkssonar tilkynnti á föstudag  lögreglunni á Suðurnesjum um grunsamlegan poka í almenningssalerni í flugstöðinni. Pokinn var tekinn í vörslu lögreglu og afhentur tollgæslunni til skoðunar. Ekki reyndist vera um fíkniefni að ræða í pokanum, eins og grunur lék á í fyrstu, heldur innihélt hann líklegast neftóbak. Pokinn vóg um 530 grömm og var tóbakið blautt. Líklegt er talið að því hafi átt að sturta niður en það  hefði ekki tekist. Pokanum  var fargað.