1 Febrúar 2013 12:00

Hundar ógnuðu fólki

Lögreglunni á Suðurnesjum var nýverið tilkynnt um að Schäfer- hundur hefði ráðist að manni og smáhund hans þar sem þeir voru á göngu. Maðurinn tók smáhundinn í fangið og hraðaði sér heim. Schäfer-hundurinn elti. Stóð hann í dyrum mannsins þegar hann hringdi á lögreglu. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var hundurinn kominn heim til sín, lá þar í dyragættinni og fylgdist vel með allri umferð fram hjá húsinu. Hann hafði opnað útidyrahurð, sem var ólæst, og komist þannig út. Málið var tilkynnt til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Þá tilkynnti dagmóðir að Husky-hundur væri hlaupandi laus í hverfinu og inn á lóð hjá sér þar sem börn væru sofandi í barnavögnum. Örfáum mínútum síðar hringdi konan aftur og var þá hundurinn kominn inn í forstofu hjá henni. Lögregla hafði þá þegar sent hundafangara af staðinn.

Minnt er á að lausaganga hunda er með öllu óheimil.

Átta í hraðakstri

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á síðustu dögum kært átta ökumenn fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 132 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þar var á ferð tæplega sextugur ökumaður með þungan bensínfót. Þá voru þrír sektaðir fyrir að leggja bílum sínum ólöglega. Loks voru númer klippt af þremur bifreiðum, sem höfðu ekki verið færðar til skoðunar innan tímamarka eða voru ótryggðar. Ökumaður einnar þessarra bifreiða ók undir áhrifum fíkniefna.