30 Mars 2007 12:00

Lögregluskóli ríkisins vill vekja athygli á neðangreindri auglýsingu embættis Ríkislögreglustjórans þar sem fram kemur að ákveðið hefur verið að taka inn nýnema í almennt lögreglunám í Lögregluskóla ríkisins í byrjun september 2007.

Allar nánari upplýsingar um námið, inntökuprófin, umsóknareyðublöð og handbók valnefndar er að finna hér á Lögregluvefnum undir Lögregluskólinn – inntaka nýnema. Þeir sem hafa áhuga á því að sækja um skólavist eru hvattir til að kynna sér þær ítarlega áður en þeir senda inn umsókn sína.

Auglýst er eftir hæfum umsækjendum sem áhuga hafa á að stunda almennt lögreglunám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins. Námið, sem skiptist í þrjár samfelldar námsannir, hefst á ólaunaðri námsönn í Lögregluskóla ríkisins í byrjun september 2007. Þeir nemendur sem ljúka önninni með fullnægjandi árangri hefja um áramótin 2007/2008 átta mánaða launaða starfsþjálfun í lögreglu en náminu lýkur svo með launaðri lokaönn í Lögregluskóla ríkisins. Áætluð námslok eru í desember 2008. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.

RÉTTINDI SEM NÁMIÐ VEITIR:

Hver sá sem lýkur almennu lögreglunámi með fullnægjandi árangri er hæfur til að sækja um laus störf lögreglumanna í lögreglu ríkisins og uppfyllir skilyrði lögreglulaga til að geta hlotið skipun til slíkra starfa til fimm ára í senn.

ALMENN SKILYRÐI – PRÓF:

Sérstök valnefnd velur nemendur í Lögregluskólann úr hópi umsækjenda. Henni ber að velja hæfustu umsækjendurna til náms og eru ákvarðanir hennar endanlegar.

Í samræmi við það sem fyrir er mælt í lögreglulögum þarf umsækjandi að uppfylla eftirtalin skilyrði:

a. vera íslenskur ríkisborgari, 20–40 ára,

b. hafa ekki gerst brotlegur við refsilög; þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að það var framið,

c. vera andlega og líkamlega heilbrigður og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum,

d. hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri eða starfsþjálfun sem jafna má til slíks náms, hafa gott vald á íslensku og ensku, hafa almenn ökuréttindi til bifreiðaaksturs og vera syndur,

e. standast inntökupróf samkvæmt kröfum valnefndar með áherslu á íslensku og þrek.

SÉRSTÖK SKILYRÐI – PRÓF:

Auk ofangreindra almennra hæfisskilyrða, sem mælt er fyrir um í lögreglulögum hefur valnefndin sett fram ákveðin viðmið til að starfa eftir og birtast þau í sérstökum verklags- og vinnureglum sem nefndin styðst við til að tryggja að samræmis gæti við mat á hæfi umsækjenda. Auk þess eru lögð fyrir próf í ensku og almennri þekkingarkönnun. Niðurstöður úr þeim eru hafðar til hliðsjónar við mat á hæfni umsækjenda.

AÐ HVERJUM ER LEITAÐ?

Leitað er eftir heilbrigðum, hraustum, duglegum, jákvæðum, kurteisum, reglusömum og liprum körlum og konum sem eiga auðvelt með mannleg samskipti. Litið er til menntunar og reynslu sem getur nýst umsækjendum í námi og lögreglustarfi.

SKIL UMSÓKNA OG ÚRVINNSLA:

Þeir sem uppfylla lágmarksskilyrði og ætla að sækja um skólavist við Lögregluskólann, fyrir haustið 2007, skulu skila rétt útfylltum umsóknareyðublöðum ásamt staðfestum afritum af gögnum frá menntastofnun um að þeir hafi lokið tilskildu framhaldsnámi. Gögnum frá erlendum skólum skal fylgja skýring á náminu á íslensku. Umsóknum og fylgigögnum verður ekki skilað. Umsóknir skulu hafa borist til valnefndar Lögregluskólans fyrir 11. apríl 2007, merkt:

Valnefnd Lögregluskóla ríkisins Krókhálsi 5b 110 Reykjavík.

LÆKNISVOTTORÐ

Eyðublöð fyrir læknisvottorð (sérstakt form) er að finna á netslóðinni www.logreglan.is. Læknisvottorð skal senda til INPRO Skipholti 50b 105 Reykjavík en ekki til skólans. Ekki dugar að skila öðrum vottorðum. Skiladagur er sá sami, 11. apríl 2007.

Leitast verður við að svara öllum umsóknum fyrir 5. maí nk.

Þeir umsækjendur sem taldir eru hæfir, samkvæmt umsókn og skila nauðsynlegum fylgiskjölum, verða boðaðir í inntökupróf sem fara fram í Lögregluskóla ríkisins dagana 21. – 29. maí. Sjúkrapróf verður aðeins haldið einu sinni og fer fram 7. júní. Skilyrði fyrir að mega þreyta það próf er að umsækjandi hafi verið sannanlega veikur á próftímabilinu og skili sérstöku læknisvottorði. Öðrum gefst ekki kostur á að þreyta sjúkraprófið. Þeir umsækjendur sem standast inntökupróf verða, að þeim loknum, boðaðir í viðtal við valnefnd. Viðtölin fara fram í skólanum 11. – 14. júní. Stefnt er að því að niðurstöður liggi fyrir í síðari hluta júní.

Sérstaklega skal tekið fram að ekki er hægt að senda umsóknir vélrænt enda verða staðfest afrit skólaskírteina að fylgja.

Reykjavík 18. mars 2007

RÍKISLÖGREGLUSTJÓRINN