24 Febrúar 2006 12:00

Ríkislögreglustjóri og Umferðarstofa af hálfu samgönguráðuneytisins undirrituðu í gær samning um aukið umferðareftirlit á þjóðvegum landsins.  Samningurinn er gerður á grundvelli umferðaröryggisáætlunar sem samþykkt hefur verið í þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005-2008.  Markmið samningsins er að draga úr fjölda banaslysa og alvarlega slasaðra í umferðinni, þannig að fjöldi slíkra tilfella á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri hér á landi en hjá þjóðum sem bestum árangri hafa náð í umferðaröryggi.  

Samningurinn, sem nú er gerður annað árið í röð, er rammasamningur um sérstakt og aukið eftirlit lögreglu með hraðakstri, bílbeltanotkun, fíkniefna- og ölvunarakstri og öðrum þeim hefðbundnu athugunum sem varða ökutæki, akstur og ökulag og fellur að verkefnum umferðareftirlits lögreglunnar eins og það er framkvæmt í dag.  Samkvæmt samningnum fjármagnar Umferðarstofa kaup á fjórum öndunarsýnamælum að andvirði 12 mkr, sex ratsjártækjum með upptökubúnaði að andvirði 10 mkr og greiðir allt að 65 mkr fyrir sérstakt eftirlit lögreglu.

Á fundi sem samgönguráðherra efndi til í gær með fréttamönnum kom fram að samkvæmt tölum frá Umferðarstofu hafi slysum á þjóðvegum landsins fækkað töluvert á þeim þremur mánuðum síðasta árs sem umferðareftirlitið var aukið, borið saman við meðaltal fimm ára á undan.  Á þessu ári verði sagan endurtekin með meiri krafti en áður og nú veittar 87 mkr í aukið umferðareftirlit lögreglu á þjóðvegum. 

 Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri

Mynd: Mbl, Ragnar Axelsson