14 Október 2005 12:00

Í tilefni af því að rjúpnaveiðar hefjast að nýju eftir tveggja ára hlé laugardaginn 15. október nk. hefur ríkislögreglustjóri hvatt alla lögreglustjóra til að efla eftirlit með skotveiðimönnum á veiðisvæðum í sínu umdæmi.

Ríkislögreglustjóri hefur vakið sérstaka athygli lögreglustjóranna á þeim breytingum sem orðið hafa á veiðistjórnun rjúpu samkvæmt reglugerð nr. 456/1994 sbr. reglugerð nr. 800/2005. Þar eru m.a. gerðar breytingar varðandi lengd veiðitímabilsins, bann er lagt við notkun vélsleða, fjórhjóla og annarra torfærutækja til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum, tiltekin svæði eru friðuð og bann er lagt við sölu rjúpna og rjúpnaafurða.

Ríkislögreglustjóri mun styrkja lögreglulið á Suðvesturlandi og á Norðurlandi vegna aukins eftirlits sem verður á þessu svæði meðan á veiðitímabilinu stendur. Ríkislögreglustjóri mun njóta aðstoðar Landshelgisgæslu Íslands með eftirlitsferðum í þyrlu við veiðilendur.

Um leið og skotveiðimenn eru minntir á þær reglur sem almennt gilda um skotveiði og leyfð skotvopn eru þeir sérstaklega hvattir til að kynna sér þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglum um rjúpnaveiði.

Reykjavík, 13. október 2005

Ríkislögreglustjóri