30 Júlí 2009 12:00

Verslunarmannahelgin er framundan og munum við verða með hert eftirlit þessa helgi.  Sérstakt eftirlit verður með Bakkaflugvelli, varðandi fíkniefni.  Verður fíkniefnalögreglan og hundur til eftirlits með farþegum sem þarna fara um.  Einnig verður eftirlit haft með ölvunarakstri þeirra sem koma og fara frá Bakkaflugvelli.  Sérútbúin lögreglubifreið verður með í för þar sem unnt er að taka öndunarpróf og  síðan fá niðustöðu á staðnum og svipta ökumenn strax ökuleyfinu mælist áfengi í þeim. 

Sérstakt eftirlit verður með umferð sjófaranda við Bakkafjöru en í fyrra lá við stórslysi er tveir bátar stönduðu þar.  Einnig var í tveimur tilfellum gefnar út ákærur  vegna brota sem tengjast farþegaflutningi til og frá Vestmannaeyjum.  Lögreglan í Eyjum verður einnig með eftirlit með þessu sín megin.   Vegurinn að vinnusvæði í Bakkafjöru er lokaður um helgina og ekki ætlast til að sjófarendur komi þar að. 

Þyrlueftirlit Landhelgisgæslunnar og lögreglunnar verður um helgina og er þyrlan mönnuð frá lögreglunni á Hvolsvelli og Selfossi.  Eftirlit verður með umferðinni úr lofti og verður farið um hálendið þar sem kannað verður með ástand ökumanna.  Einnig verður fylgst með utanvegaaktri sem er að verða mjög algengur.  Um síðustu helgi var ökumaður sektaður um 190 þúsund krónur fyrir slíkt brot.    Hægt er að sekta fyrir allt að 500 þúsund krónur fyrir utanvegaakstur. 

Hvetjum við vegfarendur að fara varlega í umferðinni.  Virða hámarkshraða og aðrar reglur.  Vonumst við til að allir skili sér heilir heim að lokinni helgi. 

Með góðri kveðju frá lögreglunni á Hvolsvelli.