9 Maí 2014 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið til afnota nýja færanlega rauðljósa- og hraðamyndavél, en með tilkomu vélarinnar verður t.d. hægt að fylgjast betur með umferð á fjölförnum gatnamótum í umdæminu þar sem slys og óhöpp hafa verið tíð. Nýja eftirlitsmyndavélin er góð viðbót og eflir þá umferðarlöggæslu sem þegar er haldið úti á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglan hefur síðustu ár lagt mikla áherslu á sýnilegt eftirlit í umferð. Það hefur verið hvað mest á stofnbrautum á morgnana og síðdegis þegar umferðin er mikil og þá gjarnan við stærstu gatnamótin í umdæminu. Samhliða hefur lögreglan notast við sérstakan myndavélabíl og mun gera áfram, en bíllinn er einkum notaður við hraðamælingar í íbúðahverfum og ekki síst í nágrenni grunn- og leikskóla. Með þessu hefur lögreglan reynt að hægja á umferð, auka árvekni ökumanna og öryggi á stöðum þar sem slysahætta er mikil. Þetta verklag hefur gefist vel að mati lögreglu og verður því framhaldið.

Eftirlitsmyndavélin mun fyrst verða sett upp á Sæbraut í Reykjavík. Mörg stór ljósastýrð gatnamót eru á Sæbraut og er það von lögreglu að vélin megi verða til þess að ökumenn gæti betur að öryggi sínu og annarra þegar þeir fara þar um.

Vélin verður gangsett næstkomandi þriðjudag.

Það voru Reykjavíkurborg og Vegagerðin sem keyptu hina nýju eftirlitsmyndavél, en eftirlit með hraðakstri er eitt af áhersluverkefnum umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda. Með tilkomu myndavélarinnar mun umferðareftirlit á höfuðborgarsvæðinu aukast enn frekar.