26 Maí 2006 12:00

Nú um helgina, 26.- 28. maí 2006 verður löggæsla á Kirkjubæjarklaustri stórefld. Tilefnið er árlegt mótorkrossmót sem haldið verður í grennd við Kirkjubæjarklaustur þessa helgi og er eitt fjölmennasta akstursíþróttamót landsins.

Aldrei hafa fleiri keppendur skráð sig til leiks en þessi keppni verður stærri og umfangsmeiri með hverju ári. Búist er við 1500-2000 gestum í tengslum við keppnina.

Lögreglan á Kirkjubæjarklaustri hefur fengið lögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra sér til aðstoðar ásamt lögreglumönnum frá Selfossi og verður allt eftirlit hert til muna og sólarhringsgæsla viðhöfð á svæðinu. Auk hefðbundins eftirlits verður sérstök áhersla  lögð á eftirlit með utan vega akstri en aðeins hefur borið  á því s.l. ár að mótorkrosshjólum hefur verið ekið utan vega á viðkvæmum svæðum og skilið eftir sig sár í náttúrunni sem lengi eru að gróa. Að gefnu tilefni vill lögregla minna ökumenn mótorkrosshjóla á að fara eftir þeim reglum sem um þau gilda og minnir á að allur akstur utan vega á þeim er bannaður nema á þar til gerðum brautum.

Til stemma stigu við utan vega akstri og hafa hendur í hári þeirra sem slíkan akstur stunda hefur lögreglan tekið flugvél á leigu sem notuð verður til að fylgjast með svæðinu úr lofti og auðvelda lögreglumönnum að halda uppi eftirliti. Þeir ökumenn sem staðnir verða að utan vega akstri verða umsvifalaust kærðir.