27 Júlí 2005 12:00

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að auka löggæslu um verslunarmannahelgina eins og undanfarin ár til að styrkja lögregluumdæmin við umferðareftirlit, með almennri löggæslu og fíkniefnalöggæslu, og upplýsingum og ráðgjöf um rannsókn alvarlegra brota.  Í öllum eða flestum umdæmum verður aukin viðbúnaður af hálfu lögreglunnar og sérstaklega þar sem útisamkomur verða.  Löggæsla sem ríkislögreglustjóri skipuleggur þessa miklu ferðahelgi er því viðbót við aðra löggæslu og verður henni beint á þá staði þar sem þörfin er mest. 

Hópur rannsóknarlögreglumanna í fíkniefnamálum verður á ferðinni þar sem fólk safnast saman og með þeim starfsmenn tollstjórans í Reykjavík sem stýra leitarhundum.  Eftirliti þeirra verður fyrst um sinn beint að brottfararstöðum til Vestmannaeyja en að öðru leyti verða þeir lögregluliðunum til aðstoðar hvar sem er á landinu.     

Umferðareftirlit lögreglunnar verður aukið verulega.  Í 35 lögreglubílum er nýr búnaður sem mælir hraða ökutækja, óháð akstursstefnu lögreglubílsins, og í 20 lögreglubílum er stafrænn búnaður sem hljóð- og myndritar samtöl og samskipti lögreglumanna við ökumenn.  Eftirlit með umferðinni verður einnig úr ómerktum bílum, en um verslunarmannahelgina er gert ráð fyrir að um 80 ökutæki lögreglunnar verði á ferðinni.  Ekkert verður dregið úr löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. 

Þegar margir yfirgefa heimili sín eins og vænta má um þessa helgi er ástæða til að minna fólk á að ganga tryggilega frá öllu áður en lagt er af stað. 

Ríkislögreglustjóri óskar öllum góðrar helgar og hvetur ökumenn sérstaklega til að sýna varúð og tillitsemi í umferðinni.