1 Ágúst 2013 12:00

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að auka umferðarlöggæslu lögregluumdæmanna í Borgarnesi, á Selfossi og á Hvolsvelli um verslunarmannahelgina með lögreglumönnum og lögreglubifreiðum frá ríkislögreglustjóra.

Þá munu lögreglumenn frá ríkislögreglustjóra vera með lögregluliðunum í Vestmannaeyjum og á Akureyri til styrkingar við löggæsluna á þessum stöðum.

Einnig mun ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæslan og lögreglustjórarnir á Selfossi og Hvolsvelli eiga samstarf um umferðareftirlit með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Tækjabúnaður verður í þyrlunni til eftirlits með hraðakstri.

Þá verður fíkniefnaeftirlit einnig eflt á nokkrum stöðum á landinu með fíkniefnaleitarhundum.

Framangreint eftirlit er viðbót við viðbúnað lögregluembættanna.

Lögreglan óskar öllum góðrar verslunarmannahelgar og beinir því til þeirra sem hyggja á ferðalög að sýna tillitssemi og aðgát.

Ríkislögreglustjóri, 1. ágúst 2013