4 Febrúar 2008 12:00

Við upphaf árs 2007 voru þrjú lögregluembætti sameinuð í eitt embætti lögreglustjórans á höfðuborgarsvæðinu. Nú hefur ákærusvið hins nýja embættis tekið saman upplýsingar um fjölda ákærðra brota og fjölda mála í samanburði við árið 2006 er þrjú embætti voru starfrækt á svæðinu. Í þeirri samantekt kemur fram að á fyrsta starfsári lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var ákært vegna 3.162 brota sem er svipaður fjöldi og árið 2006 er ákært var vegna 3.142 brota. Þessar ákærur voru afgreiddar með 1.497 ákærumálum árið 2006 en 1.376 á síðasta ári sem er 8% fækkun mála á milli ára.

Þessi samantekt leiðir það í ljós að með aukinni skilvirkni, yfirsýn og samræmingu á störfum deilda hefur verið hægt að koma fleiri brotum til meðferðar hjá dómstólunum í færri dómsmálum. Þetta á sérstaklega við í málum síbrotamanna en það er meðal markmiða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að rjúfa brotaferil þeirra. Það er gert með því að grípa til aðgerða gegn þeim með gæsluvarðhaldi og málsmeðferð sem miðar að því að ljúka málum þeirra og fá dóm yfir þeim á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.