22 September 2005 12:00
Að undanförnu hefur nokkuð borið á innbrotum í nýbyggingar og vinnuskúra í Hvarfa- og Kórahverfi í Kópavogi. Talsverðum verðmætum hefur verið stolið, aðallega verkfærum. Til að stemma stigu við þessu mun lögreglan halda uppi sérstöku eftirliti í þessum hverfum. Húsbyggjendur, bæði einstaklingar og fyrirtæki, eru hvattir til að ganga eins tryggilega og unnt er frá nýbyggingum og vinnuskúrum svo og verkfærum sem nauðsynlegt er að geyma á byggingarstað. Fólk er einnig hvatt að fylgjast vel með mannaferðum í þessum hverfum, sérstaklega að næturlagi, og tilkynna til lögreglu ef þær þykja grunsamlegar.