30 Júlí 2008 12:00

Lögregluembætti landsins og tollgæsla eru í góðri samvinnu um skipulagningu og framkvæmd löggæslu um komandi verslunarmannahelgi.  Sem fyrr veitir ríkislögreglustjórinn embættunum stuðning á sviði umferðar- og fíkniefnamála og mun sérsveitin veita liðsinni við almenna löggæslu.

Fíkniefnalöggæsla:

Frá árinu 1999 hefur embætti ríkislögreglustjóra staðið fyrir hertu eftirliti gegn sölu, meðferð og neyslu ólöglegra fíkniefna um verslunarmannahelgina.  Markmið embættisins er að styrkja og auka almennt fíkniefnaeftirlit og fjölga afskiptum af einstaklingum sem grunur leikur á að séu viðriðnir fíkniefnabrot.  Þá verður aukið eftirlit með póst- og vörusendingum og á helstu samgöngustöðum.

Frá 21. júlí hafa ríkislögreglustjórinn og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðið saman að sérstöku götueftirliti.  Þunga eftirlitsins hefur að mestu verið beint að höfuðborgarsvæðinu en um sl. helgi veittu teymi fíkniefnalögreglumanna aðstoð við eftirlit í Vestmannaeyjum og á Akureyri.  Eftirlit með þessum hætti stendur fram að verslunarmannahelgi og er unnið í góðri samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, Selfossi, Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.

Frá 31. júlí og fram yfir verslunarmannahelgina ferðast 3 teymi fíkniefnalögreglumanna og tollvarða með leitarhunda um landið á vegum ríkislögreglustjórans.  Í samvinnu við lögregluembættin sinna teymin fíkniefnalöggæslu víðsvegar um landið en eftirlit þeirra er til viðbótar við þá löggæslu sem hver lögreglustjóri hefur skipulagt í sínu umdæmi.

Umferðareftirlit:

Í febrúar 2007 gerðu embætti ríkislögreglustjóra og Umferðarstofa, f.h. samgönguráðuneytisins, samning um sérstakt hraðaeftirlit og eftirlit við þekkta slysastaði á þjóðvegum landsins.  Öll lögregluembættin taka þátt í eftirlitinu sem er skipulagt af ríkislögreglustjóranum.  Það er mat embættisins að samstarfið hafi skilað góðum árangri.

Um verslunarmannahelgina verður sérstök áhersla lögð á hraðamælingar og sýnilegt eftirlit á vegaköflum og svæðum þar sem talið er að mestur fólksfjöldi og umferð verði.  Til viðbótar verður umferðareftirliti sinnt úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem er hluti af samstarfsverkefni ríkislögreglustjórans og Landhelgisgæslunnar um þjóðvega- og hálendiseftirlit. 

Ríkislögreglustjórinn óskar öllum góðrar ferðar um verslunarmannahelgina.