21 Apríl 2015 21:21

Kl. 13:57 í dag var tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á Biskupstungnabraut, nokkuð  ofan við Borg í Grímsnesi.                Lögregla, sjúkralið og slökkvilið fóru þegar á vettvang.

Árekstur varð með tveimur bifreiðum sem ekið var í gagnstæðar áttir.  Erlend hjón á ferðalagi voru í öðrum bílnum og sluppu þau lítið meidd en eru þó enn til eftirlits á sjúkrahúsi í Reykjavík.   Bifreið þeirra kastaðist út fyrir veginn og valt við áreksturinn.  Íslenskur karlmaður á sjötugsaldri sem var einn í hinni bifreiðinni slasaðist mikið og var fluttur af vettvangi með sjúkrabifreið til móts við þyrlu LHG sem flutti hann á sjúkrahús í Reykjavík.  Endurlífgunartilraunir sem vegfarendur, þ.m.t. ökumaður og farþegi hinnar bifreiðarinnar hófu á vettvangi og var fram haldið á leið á sjúkrahús af sjúkraliði báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn fljótlega eftir komu þangað.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fer með rannsókn málsins og nýtur við það aðstoðar bíltæknifræðings.

Ekki er unnt að birta nafn hins látna að svo stöddu