16 Ágúst 2011 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af tveimur ökumönnum í tengslum við rannsókn hennar á hörmulegu umferðarslysi sem varð á Geirsgötu í Reykjavík um hálftíuleytið (21.24) síðastliðið föstudagskvöld. Ökutæki þeirra voru staðsett á gatnamótum Geirsgötu og Tryggvagötu þegar slysið varð. Um er að ræða gráa Suzuki-fólksbifreið á hægri akrein (á vesturleið) en talið er að karlmaður hafi ekið bílnum. Hinn bíllinn kom úr gagnstæðri átt og var á vinstri akrein (á austurleið). Ekki er vitað hvort karl eða kona ók þeim bíl né heldur hverrar tegundar hann er. Ökumennirnir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.

Eins og fram hefur komið voru þrír menn í bíl sem hafnaði á húsi við Geirsgötuna í umræddu slysi. Einn þeirra lést á sjúkrahúsi tveimur dögum eftir slysið.